Nýr formaður KÍ
Heiðarlegur talsmaður allra skólastiga
Formennska í KÍ er
þjónustuhlutverk
Heimir Eyvindsson
framboð til formanns KÍ
Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formennsku í Kennarasambandi Íslands. Þegar þessi orð eru rituð, einum degi áður en frestur til að tilkynna um framboð rennur út, er ég einn fjögurra frambærilegra frambjóðenda.
Eins og aðrir frambjóðendur til embættisins geri ég mér fulla grein fyrir því að formaður KÍ þarf að gæta hagsmuna allra félagsmanna, hvar sem þeir starfa. Ég kem úr grunnskólanum og þekki málefni hans vel, sérstaklega hvernig staðan er utan Reykjavíkur. Verandi tónlistarmaður í hjáverkum þekki ég málefni tónlistarskólans sæmilega, tók meðal annars óbeinan þátt í kjarabaráttu tónlistarkennara í síðasta verkfalli. Helstu áherslur félagsfólks sem starfar á hinum tveimur skólastigunum þekki ég á yfirborðinu, en er þessa dagana í óða önn við að kynna mér þær betur.
Ég hef raunar aldrei stundað nám í leikskóla sjálfur, það þótti of mikið vesen í sveitinni, en á móti kemur að ég var óvenju lengi í framhaldsskóla. Var í FSu í 5 ár og kláraði 29 einingar. Það gefur því auga leið að ég var enginn sérstakur aðdáandi styttingar náms til stúdentsprófs. Kannski er ástæða þess að ég eyddi framhaldsskólaárunum í að leika mér einmitt sú að ég hafði aldrei áður leikið mér í skóla. Ég kunni það hvorki né þorði því í grunnskóla. Þar var ég með prúðari nemendum, afburða bóknámsmaður með litla hreyfifærni.
Meðal annars vegna þessarar reynslu minnar er ég mikill talsmaður leiks, hreyfingar, útiveru og allskonar uppbrots í skólastarfi - á öllum skólastigum - og get orðið ansi þver þegar heftandi hugmyndir um skipulag náms og kennslu eru settar fram, að því er virðist í fúlustu alvöru. Til að mynda að það þurfi að auka vægi bóklegs náms í leikskóla og það muni bjarga andliti okkar í alþjóðlegum samanburði að streða við það oftar á dag að læra íslensku og náttúrufræði, á kostnað til að mynda valgreina sem eru í mörgum skólum í senn lýðræðislegasta og líflegasta viðfangsefni sem nemendur glíma við. Með öðrum orðum treysti ég kennurum og skólastjórnendum á öllum skólastigum betur til að skipuleggja skólastarfið en þeim sem telja að hægt sé að mæla öll okkar verk og laga með tilfærslum á dálkum, s.s. gildum í viðmiðunarstundaskrá.
Það er ótalmargt framundan hjá okkur í KÍ. Fyrst er að telja að samningar við FL, FG, FT, FSL og SÍ renna út um áramót. Við þær kjaraviðræður er ágætt að hafa það hugfast að fyrsta aðgerðaráætlun fyrir nýja menntastefnu hefur nú verið lögð fram og ljóst að mikil vinna mun fylgja innleiðingu hennar. Þá mun svokallað farsældarfrumvarp einnig kalla á mikla vinnu innan skólanna. Tryggja þarf að þessum góðu verkefnum og göfugu markmiðum fylgi nægt fjármagn þannig að við sem tökum að okkur vinnuna fáum greitt fyrir hana.
Svo væri líka hressandi að gera eins og einn kjarasamning sem er ekki það flókinn að ótal vinnustundir fari í að rífast um hvað standi í honum.
Hverjar eru mínar skoðanir?
Í stuttu máli, til þess að gera:
Fyrir það fyrsta ber ég það mikla virðingu fyrir jafningjum mínum að það hvarflar ekki að mér að halda því fram að ég hafi dýrmætari reynslu eða þekkingu en einhver annar. En ég er ágætlega læs og lesinn, hef brennandi áhuga á skóla- og kjaramálum og góður liðsmaður.
Mér finnst líklegt að þau ykkar sem eru búin að lesa alla leið hingað séuð svipað þenkjandi fólk og ég. Fólk sem hefur áhuga á flestu því sem viðkemur skólastarfi. Upptalningin hér á eftir er því örugglega allt eitthvað sem þið vitið nú þegar og hafið jafnvel kynnt ykkur betur en ég.
Hér eru allavega allskonar punktar um efni sem ég hef skoðun á og finnst skipta máli að við ræðum og gerum eitthvað í. Ég vona að þetta hljómi ekki eins og hvert annað froðusnakk, það er fátt sem mér leiðist meira í umræðu um menntamál en sömu frasarnir aftur og aftur.
Nokkrir punktar:
Það má finna margt gott í flestum aðferðum og kerfum en ekkert bjargar heiminum eitt og sér.
Það er ekki til nein töfralausn sem hentar öllum. Það sem skiptir mestu máli er á endanum aðallega kennarinn, þótt allt hitt skipti auðvitað líka máli. Tekst honum að vekja forvitni nemenda, efla með þeim virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, búa til næringarríkt umhverfi, efla sköpunargáfu og sjálfstraust og hvetja til uppbyggilegrar samræðu? Ef það tekst, þá er mér nokk sama hvernig það er gert. En í mínum huga er alveg ljóst að það hefst ekki með „valdboði að ofan".
Ég er hrifinn af heimspekilegri nálgun í skólastarfi og vitna til að mynda stundum í Atla Harðarson sem segir að skólar mættu gjarnan vera griðastaður þess seinlega. Við ofmetum oft það sem við ætlum að gera á einu skólaári, en vanmetum kannski hversu margt gott getur gerst á 10 árum.
Ég tel að það þurfi að ræða það í fullri alvöru hvort besta mögulega rekstrarform leik- og grunnskóla í landinu sé að 69 sveitarfélög þar sem rúmur helmingur er með færri en 1000 íbúa (1. janúar 2021, samband.is) standi undir þjónustunni.
Ég veit að sveitarfélögin vilja standa sig vel í málefnum leik- og grunnskóla og mörg hafa gert fína hluti, sum t.d. með stuðningi fjársterkra fyrirtækja í nærsamfélaginu. Slíkra forréttinda njóta þó einungis örfá sveitarfélög og sannleikurinn er sá að mörg eru að bugast. Hafa enga burði til að standa undir sívaxandi þjónustuþörf við börn sín.
Víða um landið er hlutfall leiðbeinenda í leik- og grunnskólum orðið býsna hátt, en á það ber þó að líta að hluti þess fólks er í kennaranámi með starfi. Hefur raunar jafnvel lokið jafn löngu kennaranámi og sumt kennaramenntað samstarfsfólk þess.
80% grunnskólabarna búa í 10 stærstu sveitarfélögunum og 10% í 50 minnstu (Jón Torfi Jónasson, Guðrún Ragnarsdóttir og Valgerður S. Bjarnadóttir, 2021). Það er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort nemendur landsins sitji við sama borð, þegar kemur að menntun og annarri sérfræðiþjónustu.
Í Pisa könnunum má sjá að marktækur munur er orðinn á árangri nemenda á höfuðborgarsvæðinu og í dreifðari byggðum.
Gleymum því þó ekki að það er margt gott í gangi í skólastarfi á Íslandi. PISA kannanir hafa til dæmis sýnt að skólabragur hér er býsna góður og líðan nemenda mælist betri en í mörgum þeim löndum sem skora hærra á prófinu.
Við kennarar höfum fengið að heyra það á tyllidögum að við höfum verið framlínustarfsfólk í Covid, það er ekki til neins úr þessu að tæta það froðusnakk í sig, en það er alltént full ástæða fyrir okkur að klappa okkur sjálfum á bakið fyrir það hvernig við sem heild tókumst á við ástandið. Alltaf náðum við að halda ró okkar og bregðast við. Sama hvað á okkur dundi.
Tæknivæðing heimila er almennt góð og þekking margra kennara á stafrænum lausnum er einnig það góð að okkur tókst á undraverðum hraða að koma á fjarkennslu fyrir grunn- og framhaldsskóla. Hluti skýringarinnar á því hversu vel það allt saman gekk var samvinna kennaranna sjálfra. Innan skólanna og ekki síður á hinum ýmsu kennarasíðum á samfélagsmiðlum var hópur kennara boðinn og búinn að miðla ráðum og reynslu til hinna. Algjörlega frábært.
Mér finnst sárlega vanta dýpri umræðu um eðli og hlutverk menntunar. Sú umræða þarf að fara fram á breiðum grunni, en ég verð að geta þess að mér finnst akkurat engin ástæða til þess að Samtök atvinnulífsins komi að henni, þau ykkar sem þekkja mig vita að þetta er nokkuð týpískt tuð frá mér.
Ég get líka drepið fólk í kringum mig með tuði yfir því hvað við eigum að kenna og hvað ekki. Með árunum er ég þó farinn að mildast dálítið og gera mér betur grein fyrir því að allt (a.m.k. flest) nám er af hinu góða og kemur okkur oftast nær á endanum vel. Líklega var það öðrum fremur prófessor Jón Torfi Jónasson sem kom því inn í hausinn á mér.
Ég er samt ennþá grjótharður á því að nemendur þurfa ekki að vita að sagnorð sem beygjast veikt enda á -ði, -di eða –ti í þátíð.