top of page

Allskonar hjal

​Ég hef oft ansi mikla þörf á að tjá mig, mér finnst ég nefnilega svo gáfaður :-). Eða fannst, það hefur aðeins lagast undanfarin ár. Ég var fastur pistlahöfundur á Sunnlenska fréttablaðinu á árunum 2012-2015 og skrifaði þá reglulega pistla um allt og ekki neitt. Af og til skrifa ég eitthvað á Facebook líka.

 

Rétt eins og pistlarnir sem ég hef skrifað um menntamál eldast þessir pistlar sumir ágætlega, en aðrir síður.

En semsagt, ef þið viljið kynnast mér betur þá eru nokkrir þeirra hér. 

 

Fyrsti pistillinn er reyndar bara mánaðargamall. Af Facebook. 
 

Fyrir hverjum klappar þú?

Birt á Facebook 5. september

Dóttir mín tekur þátt í starfi mannréttindasamtakanna Amnesty. Henni er einnig umhugað um umhverfismál, sjálfbærni og margt annað sem mín kynslóð hefur ekki hugsað nægilega vel um. Ég hrósa henni reglulega fyrir það, enda fagna ég því að til sé fólk sem kýs fremur að berjast fyrir bættum hag heildarinnar en sínum eigin.

 

Það er mitt val að gefa henni klapp, hvort sem það er lífrænt knús og klapp á bakið eða rafrænn þumall á Facebook. Ef mér líkuðu ekki athafnir hennar gæfi ég henni tæpast like á samfélagsmiðlum, nema kannski óvart – eins og miðaldra menn geta vissulega lent í.

 

Vararíkissaksóknari hefur líka val um það hvað hann kýs að læka á samfélagsmiðlum, það er altså enginn að neyða hann til að ýta á þumalinn, en það vekur óneitanlega furðu að hann skuli af sjálfsdáðun ítrekað kjósa að gefa þeim klapp sem tala niðrandi um innflytjendur og brotaþola í ofbeldismálum.

 

Umræddur vararíkissaksóknari situr í skjóli Sjálfstæðisflokksins sem hefur haft Dómsmálaráðuneytið á sinni könnu í 26 ár af síðustu 30, enda er það ásamt fjármálaráðuneytinu það ráðuneyti sem flokkurinn leggur yfirleitt mest kapp á að halda völdum í. Þar er jú í senn brýnast og nærtækast að verja hagsmuni þess fámenna hóps sem flokkurinn starfar fyrir.

 

Annars eigum við vararíkissaksóknari það sameiginlegt að við erum duglegir að gefa like. Ég gef allskonar fólki like, úr flestum flokkum býst ég við. Ég er til dæmis merkilega oft sammála því sem Gísli Marteinn skrifar á Twitter og svo gef ég Guðrúnu vinkonu sem er að fara að vinna stóran kosningasigur stundum like líka. Ég get samt ómögulega klappað fyrir flokknum þeirra, sem verður sífellt ósvífnari og augljósari hagsmunagæsluflokkur fyrir ríkasta 1 prósentið - og aðra vini og ættingja sem flokkurinn gefur endurtekin tækifæri á að hagnast á hlutum sem eiga með réttu að skapa okkur öllum verðmæti. Flokkur sem styður Samherja með ráðum og dáð og lætur setja lögbann á umfjöllun fjölmiðils um fjármálagjörninga formanns síns, svo fátt eitt sé tínt til, mun seint fá like frá mér. Hvað þá atkvæði.

 

Ég minntist á dóttur mína í upphafi þessa pistils. Hún og fleira ungt fólk gerir sitt besta til að breyta hegðun okkar sem eldri erum, í því augnamiði að gera heiminn betri fyrir fleiri. Að reyna að fá okkur til að hætta að fylgja „freka kallinum“ sem lætur sig mannréttindi og annað regluverk engu skipta í óseðjandi græðgi sinni og mun halda áfram að mergsjúga allar auðlindir og alla innviði sem mögulegt er að komast í, þar til yfir lýkur.

 

Af einhverjum ástæðum fær freki kallinn alltaf haug af lækum. Í það minnsta nóg til að geta haldið sínu striki. Við erum svo sjúklega meðvirk að við trúum því að ekkert betra sé í boði, það sé „sama rassgatið” undir öllu þessu liði.

 

Gott og vel. Segjum sem svo að „allt þetta lið“ sé eins, hví þá ekki að prófa að læka einhvern annan en freka kallinn? Hver veit, kannski fer ekki allt lóðbeint til fjandans þótt við gefum honum smá frí?

Ég pissa eins og stelpa

Birt í Sunnlenska fréttablaðinu í nóvember 2013

Umgengni á klósettum getur orðið uppspretta mikilla skoðanaskipta á heimilum og vinnustöðum.

Oft má sjá ljóð inni á salernisaðstöðum, til þess ætluð að minna karlmenn á hvað þeir séu miklir sóðar. Á mínum vinnustað er þessháttar ljóð á karlaklósettinu. Megininntak þess er að tólið sé minna en við höldum og þessvegna verðum við að stíga aðeins nær salerninu. Á sama stað er einnig að finna andsvar frá karlpeningnum, í bundnu máli. Lokalína þess ljóðs er lýsandi fyrir innihaldið: Við stöndum til síðasta dropa!

Í nágrannalöndum okkar, Noregi og Svíþjóð, hefur klaufaskapur karlmanna við klósettferðir verið talsvert í umræðunni undanfarin ár. Í skóla einum í Noregi var gengið svo langt að banna drengjum að pissa standandi. Það vakti hörð viðbrögð hér og þar í þjóðfélaginu. Mesta athygli vöktu viðbrögð formanns norska demókrataflokksins, sem taldi það alvarlegt  mannréttindabrot að neyða stráka til að pissa eins og stelpur.

Ekki veit ég hver ákvað að það væri eitthvað lögmál að karlmenn ættu að pissa standandi. Jafnvel mætti halda því fram að þetta sé enn eitt dæmið um ójafnvægið milli kynjanna, sem hefur viðgengist alltof lengi. Kynjafræðingar hafa jú bent á að oftar en ekki er ímynd karlmannsins, í auglýsingum, myndböndum og víðar, sú að hann sé sterkur og uppréttur en kvenmaðurinn veikburða og undirgefinn. Ýmist sitjandi eða liggjandi, skör neðar en karlmaðurinn.

Ég hætti mér ekki út í frekari greiningar á stöðu kynjanna út frá því hvernig þau bera sig að við klósettferðir. Hitt er annað mál að ég held að sú einfalda aðgerð að setjast niður við þvaglát gæti bætt andann verulega á mörgum heimilum og vinnustöðum.

Þar sem ég er almennt ekki fylgjandi boðum og bönnum vona ég að ekki þurfi að koma til þess hér á landi, að karlmönnum verði meinað að spræna uppréttir. Eftirlit með slíku yrði líka erfitt í framkvæmd trúi ég. Aftur á móti vona ég að karlmenn taki það smátt og smátt upp hjá sjálfum sér að pissa sitjandi. Það er gott að eiga slíka gæðastund, ég get vottað það. Ég pissa eins og stelpa og er stoltur af því.

Listin að blístra og blikka

Birt í Sunnlenska fréttablaðinu í júní 2013

Yngsta barnið á heimilinu reynir dálítið á þolrif annarra fjölskyldumeðlima þessa dagana. Ástæðan? Jú, hún er að æfa sig að blístra.

Ég fetti ekki fingur út í þessar æfingar, vegna þess að ég gleðst yfir því að það skuli enn vera svo, á tímum tækni sem við pabbarnir skiljum ekki alltaf, að krakkar finni sig knúna til þess að læra að blístra. Ég hélt hreinlega að samfélagið gerði ekki lengur kröfu um slíka kunnáttu.

Ég man sjálfur eftir ákveðinni pressu frá félögunum í sambandi við atriði sem betra var að kunna á mínum ungdómsárum, ef maður vildi teljast maður með mönnum. Hluti eins og að geta flautað lagstúf, blístrað svo heyrðist milli bæja, smellt fingrum, gert prumphljóð með handleggjunum og blikkað augum, svo fátt eitt sé nefnt.

Ég var hálf lélegur í þessu öllu saman og fannst ég alls ekki eins töff og félagarnir, sem fljótari voru til að ná valdi á þessari færni allri saman.

Ég man sérstaklega eftir glímunni við tvennt. Hið fyrra var líklega það sem mig langaði mest að kunna. Listin að blikka. Einhvernveginn var tíðarandinn þannig í mínu ungdæmi að það þótti fátt svalara en að blikka stelpur! Ég gat hinsvegar ekki með nokkru móti blikkað án þess að restin af andlitinu afmyndaðist. Og get ekki enn. Það gerði mér kærustuleit afskaplega erfiða og kom sér ekki síður illa þegar hið vinsæla spil Morðingi var á dagskrá.

Seinna atriðið sem ég náði aldrei tökum á, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, var að reykja. Fátt þótti flottara í þá daga og maður reyndi og reyndi. Ég held einmitt að ég hafi verið á svipuðum aldri og yngsta barnið mitt er í dag, þegar við félagarnir stálum pakka af Viceroy og púuðum hann allan í kofa á bak við hús. Það var skemmtilegt á meðan á því stóð, en endaði ekkert sérstaklega vel.

En þrátt fyrir uppköst og ógleði gafst maður ekki upp. Þegar ég síðan loks náði tökum á því að taka ofan í mig var mér sagt að ég héldi asnalega á sígarettunni. Þá var mér öllum lokið.   

 

Að læka sjálfan sig 

Birt í Sunnlenska fréttablaðinu í janúar 2014

Fyrir rúmu ári strengdi ég fremur kjánalegt áramótaheit,  þegar ég lofaði mér því að „læka” sjálfur allar mínar athafnir á Facebook. Stöðuuppfærslur, athugasemdir og hvaðeina.  Það sem meira er, mér tókst að standa nokkurn veginn við heitið. Einu sinni verður allt fyrst.

Til að byrja með fannst mér þetta sniðugt og benti þeim sem undruðu sig á athæfinu gjarnan á, að ef maður „lækar” ekki sjálfan sig þá getur maður varla ætlast til þess að aðrir „læki” mann.

Eftir því sem að líða fór á árið fór mér nú heldur að leiðast þetta og undir lok árs var mér jafnvel farið að þykja „lækið” heldur vandræðalegt. Enda var ég þá löngu hættur að útskýra fyrir FB vinum mínum afhverju ég léti svona eins og fífl, sem varð til þess að þegar nýir vinir bættust í hópinn fannst þeim ég oft ansi hreint sjálfumglaður. En af þrjósku hélt ég árið út. 

Ég er alinn upp við gömul og góð máltæki eins og hátt hreykir heimskur sér og fleira gagnlegt. Fátt er mér eins óeðlislægt og að hrósa sjálfum mér. Það má hinsvegar velta því fyrir sér hvort það sé ekki bara bráðhollt?

Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur sagði á fyrirlestri sem ég sat í haust, að oftar en ekki værum við sjálf okkar verstu óvinir. Yfirleitt væri enginn dómharðari en maður sjálfur, ef maður stigi feilspor í lífinu. Vissulega höfum við öll gott af því að líta reglulega í eigin barm og víst er það, að enginn er yfir gagnrýni hafinn. Ekki einu sinni maður sjálfur. Í þessu, eins og raunar flestu öðru, virkar gamla góða meðalhófið líklega best. Þessvegna er kannski ekki svo vitlaust að leyfa sér þann munað að „líka við” mann sjálfan af og til. Þótt það sé bara á Facebook.

Svo skal böl bæta

Birt í Sunnlenska fréttablaðinu í júlí 2013

Ég var svo heppinn að geta eytt hluta sumarfrísins í útlöndum þar sem veðrið var heldur skaplegra en hér á Suðurlandinu. Ég hef þessvegna ekki látið ótíðina fara of mikið í taugarnar á mér. Þvert á móti hef ég reynt að hughreysta vini mína sem hafa allt á hornum sér þegar talið berst að veðri. Rétt eins og efnamaðurinn sem kastar brauðmolum til almúgans.

Ég man þá tíð að maður tók með sér nesti og uppblásnar slöngur til þess að leika sér í tjörnunum sem iðulega mynduðust um það bil þar sem Fjölbrautaskóli Suðurlands stendur nú. Eftir langvarandi rigningar. Þessi upprifjun mín bætir geð vina minna ekki neitt.

Ég man líka þá tíð þegar Nokia voru stígvél. Ekki batnar ástand félaga minna heldur neitt að ráði þegar ég lýg því að ég hafi nánast alla barnæsku mína verið klæddur í slíkan fótabúnað. Ef ekki Nokia, þá Viking. Keypt í K.Á eða Höfn. 

Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað. Ég er semsagt farinn að stunda þessa gömlu iðju. En það bætir ástand manns ekki neitt að vita af því að einhver annar hafi það meira skítt. Maður er orðinn svo góðu vanur, ofdekraður hreinlega, að maður leiðir ekki einu sinni hugann að svöngu börnunum í Afríku þegar maður fær sér ábót á diskinn. Maður vill bara hafa það gott.

En maður hrekkur samt óneitanlega við þegar manni berast fregnir af fáránleikanum í eyðimörkinni í Dubai. Fyrst af góðum dreng héðan af Suðurlandinu, sem mátti dúsa þar lengi í baráttu sinni við kerfið, og nú síðast af norsku stúlkunni sem eftir nauðgun var dæmd fyrir að stunda kynlíf utan hjónabands!

Emírinn í Dubai hefur reyndar náðað hana eftir að alheimspressan fór á hliðina, en hversu margar stúlkur skyldu nú dúsa í dúbæskum fangelsum fyrir ámóta vitleysu. Er ekki vert að velta því fyrir sér? Stúlkur sem ekki fá athygli heimspressunnar.

Ég verð að segja að þeir eru of klikkaðir fyrir minn smekk í sólinni þarna suðurfrá. Þá er nú sunnlenska slagviðrið betra.

Svo skal böl bæta ...

Ertu að segja að ég sé feit?

Birt í Sunnlenska fréttablaðinu í júní 2015

María Ólafsdóttir sagðist hafa sungið af sér rassgatið fyrir Ísland í Eurovision á dögunum. Þessi unga og óreynda söngkona átti þar vitanlega við að hún hefði lagt sig alla fram og gert eins vel og hún mögulega gat, til þess að vera landi og þjóð til sóma í þessari alþjóðlegu söngvakeppni.

Samfélagsmiðlar loguðu kvöldið sem María söng. Sumir fundu sig knúna til þess að gera lítið úr frammistöðu hennar, en ég gat reyndar ekki betur séð en langflestir tuðuðu yfir tuðinu. Skömmuðust semsagt yfir þeim sem settu út á Maríu með misjafnlega ófyndnum athugasemdum. Á „mínum“ samfélagsmiðlum var samúðin að minnsta kosti með Maríu frekar en hitt.

Daginn eftir kom hún síðan með rassgats athugasemdina og þá kom annað hljóð í skrokkinn. Mörgum sem kvöldið áður höfðu haft á orði hvað fólkið á Facebook og Twitter var grimmt við söngkonuna ungu virtist misboðið. „Maður segir ekki rassgat“. Það var allt í einu orðið aðalatriðið.

Þetta er ágætt dæmi um orðhengilshátt. Maríu sárnaði grimmileg ummæli um sjálfa sig á samfélagsmiðlum og svaraði fyrir sig. Í hita leiksins notaði hún eitt óheppilegt orð, sem ekki er líklegt til vinsælda, og það var allt í einu orðið aðalatriðið í umræðunni.

Orðhengilsháttur er öflugt vopn í rökræðum – og ákaflega hvimleitt. Ég leyfi mér að fullyrða að flestir stjórnmálamenn notist við þetta verkfæri, enda gráupplagt að drepa óþægilegri umræðu á dreif með því að setja fókusinn á eitt eða tvö óheppileg orð. Orðhengilsháttur er svosem ekki einskorðaður við pólitík. Deilur hjóna og hjónaleysa leysast oft upp í þras um orðalag. „Ertu að segja að ég sé feit!?“ Hver hefur ekki lent í því?

Vissulega skiptir orðnotkun miklu máli. Það er til að mynda ekkert töff við það þegar fullorðnir karlmenn spyrja unglingsstúlkur í sjoppum hvar þeir eigi að „setja hann inn“, þegar þeir myndast við að setja kortið í posann. Það er heldur ekkert töff að kalla einhvern þroskaheftan eða geðveikan. Stundum er orðnotkun nefnilega aðalatriðið, en stundum alls ekki. Það væri voðalega gott ef við værum betri í að greina þar á milli.     

bottom of page