top of page

Greinar og fréttir og af framboðsmálum 

Hættum þessu rugli

8. nóvember 2021

Við lifum kannski alltaf á viðsjárverðum tímum, en sjálfsagt getum við verið sammála um að þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir núna eru býsna stórar. Græðgin er svo yfirgengileg að hráefni jarðarinnar eru að klárast eitt af öðru og virðing fyrir öðrum, s.s. fólkinu sem stritar við ósæmandi kjör við að framleiða rafhlöður í svo að segja einnota símana okkar eða sauma á okkur fötin sem við hendum eftir að hafa klæðst þeim einu sinni eða tvisvar, er lítil sem engin.

​

Eftir hrun varð mikil umræða um það siðrof sem hafði orðið í þjóðfélaginu. Í kjölfar þjóðfundar 2009 voru hugtök eins og gagnrýnin hugsun og sjálfbærni skrifuð inn í nýjar aðalnámskrár og vonir stóðu til þess að með aukinni áherslu á þá þætti í skólastarfi tækist að byggja upp heilbrigðara og réttlátara þjóðfélag. Í sömu námskrár var hins vegar aukinheldur skrifaður inn haugur af mælanlegum markmiðum og viðmiðum í öllum greinum, sem öllum er nú ljóst að ekki var nokkur lifandi leið að fara eftir.

​

Fjöldinn allur af misvísandi skilaboðum frá yfirvöldum menntamála og allskonar þras og bras okkar sjálfra við að fá einhvern botn í þær kröfur sem okkur ber að uppfylla hefur gert það að verkum að mun minna púður en til stóð hefur farið í að fylgja þeim göfugu markmiðum að leggja áherslu á grunnþætti menntunar. Auknar mælingar ríkis og sveitarfélaga á vinnuframlagi okkar og árangri sem boðaðar eru í nýrri menntastefnu munu ekki hjálpa okkur neitt í þeim efnum.

​

Ég trúi því að viðsemjendur okkar hafi vilja til að byggja hér upp heilbrigt menntakerfi, en það er ekki nóg að vilja. Það þarf líka að skilja. Skilningur yfirvalda á eðli skólastarfs er nefnilega oft sorglega takmarkaður. Allt of margt sveitarstjórnarfólk lítur til dæmis augljóslega fyrst og síðast á leikskólann og yngri stig grunnskólans sem vistunarúrræði sem hafi þann megin tilgang að tryggja að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki.

​

Skilningur á starfi tónlistar- og framhaldsskóla er engu skárri, um það vitna stútfullir tónlistarskólar um allt land sem vegna ýmissa aðstæðna sem þeim eru skapaðar hafa ekki burði til að anna eftirspurn, þrátt fyrir að við vitum mæta vel hvað ávinningur af góðu tónlistarnámi er fjölþættur. Stytting náms til stúdentsprófs segir síðan allt sem segja þarf um skilning yfirvalda á skólastarfi í framhaldsskólum.

 

Það er kominn tími til að segja nei við þessu rugli. Við kennarar þurfum að rétta úr okkur og setja skýrari mörk hvað okkur varðar. Segjum nei við óraunhæfum kröfum, auknu orðskrúði, fleiri stefnum sem ekki er ljóst hvernig á að innleiða, skilningsleysi yfirvalda á eðli skólastarfs á öllum skólastigum og endalausu þvargi milli ríkis og sveitarfélaga um það hver eigi að borga fyrir ýmsa lögbundna þjónustu sem getur skipt sköpum fyrir okkur sjálf og nemendur okkar.

Ég hef víðtæka reynslu af því að gera mistök

3. nóvember 2021

Auðmýkt er lykilhugtak í leiðtogafræðum nútímans. Í þeim fræðum telst einnig til ótvíræðra kosta að hlusta meira en maður talar. Ég hef reynt að temja mér hvort tveggja.

​

Það myndi aldrei hvarfla að mér að halda því fram að ég væri hæfastur meðal jafningja minna. Ef maður veit alltaf allt best lærir maður minna og minna með hverjum deginum. Allra síst myndi það hvarfla að mér að byggja mat á eigin hæfni á fremur einsleitri reynslu úr sama kerfinu, nær alla starfsævina.

 

Ég hef starfað við kennslu í 17 ár en hef aukinheldur verið svo heppinn að hafa fengið að fást við ýmis önnur störf. Bæði í eigin rekstri og annarra. Öll sú reynsla hefur mótað mig sem manneskju og aukið mér víðsýni. Það sem hefur þó líklega kennt mér mest og best á lífið er sú býsna víðtæka reynsla sem ég hef af því að gera mistök. Hvort heldur sem er í vinnu eða einkalífi. Það er nefnilega óumflýjanlegt að gera mistök á lífsleiðinni, en það sem ég hef reynt að kenna sjálfum mér og nemendum mínum er að leggja áherslu á að læra af þeim og nýta þau til þess að bæta sig smátt og smátt. Þar er auðmýkt lykilatriði.

 

Mörg stór mál eru framundan hjá okkur kennurum, til að mynda ný menntastefna sem á að gilda til 2030. Í henni eru enn eina ferðina boðaðar breytingar á gildandi aðalnámskrám, en hér á landi hefur það tíðkast óslitið frá 1974 að pólitíkin snúi öllu umhverfi okkar á haus á 10-15 ára fresti. Það er nauðsynlegt að rödd kennara heyrist betur en hingað til í þeirri vinnu. Að mínu viti er ekki skynsamlegt að gera of miklar breytingar of ört. Heillavænlegra er að vinna áfram með grunnþætti menntunar en minnka orðskrúðið, fækka mælanlegum markmiðum og gera þau sem eftir verða í senn skiljanleg og heiðarleg. Þannig að einhver leið verði að fara eftir þeim. Við það myndi a.m.k. einum streituvaldinum í starfi okkar fækka. 

 

Ég vil efla innra starf KÍ og gera félagið virkara og aðgengilegra fyrir almenna félagsmenn. Ekki síst fólk á landsbyggðinni. Endurskoða þarf rekstur og regluverk sumra sjóða félagsins, til að mynda er rík ástæða til að endurskoða reglur sjúkrasjóðs. Við borgum öll dágóðar upphæðir í þann sjóð en samt dugar styrkur til sálfræðiþjónustu rétt svo fyrir einu og hálfu viðtali. Þá eigum við sem búum úti á landi eftir að borga ferðakostnað og vinnutap því á mörgum stöðum er hreinlega enga sálfræðiþjónustu að hafa. 

 

Einnig er mikilvægt að jafna kjör kennara milli skólastiga, en þar eins og í mörgu öðru endurspeglast það flækjustig sem felst í því að bæði ríki og sveitarfélög reki menntakerfið. Nú gildir sama leyfisbréf í leik-, grunn- og framhaldsskólum og þar með viðurkennt að allir séu jafn gildir sérfræðingar í menntun á öllum skólastigum. Einn þessara hópa þarf þó að kenna mun fleiri kennslustundir en hinir til að uppfylla skyldur sínar. Það er óeðlilegt og eitt af því fjölmarga sem formaður KÍ þarf að geta tjáð sig um á heiðarlegan og málefnalegan hátt, ávallt með það að markmiði að skapa okkur öllum réttlátara og heilbrigðara starfsumhverfi. 

Fyrsti framboðsfundurinn

28. október 2021

Í gærkvöldi var framboðsfundur á Grand Hótel. Ég segi ykkur betur frá minni upplifun af honum þegar tími vinnst til, en hér fyrir neðan er upptaka af ræðunni minni

Framboðsfundur

Eins og þið heyrið talaði ég aðeins of hægt þannig að ég náði ekki að koma öllu frá mér sem ég ætlaði að segja. Fyrir þá sem vilja vita meira er skrifaða útgáfan hér að neðan.  

Þeir leynast víða hæfileikarnir

Ræða á kynningarfundi frambjóðenda 27. október 2021

Ég er alinn upp á heimili afar ólíkra foreldra. Mamma var jarðbundin og nægjusöm en pabbi súrrandi listamaður með stórar, miklar og dýrar hugmyndir. Gekk um gólf, reykti og hugsaði og mamma þreif öskuna eftir hann.

 

Það gekk auðvitað á ýmsu hjá þeim eins og gengur og stundum skammaðist pabbi sín og kom þá gjarnan heim með einhverjar gjafir, svona til að milda mömmu. Oft voru þetta bara einhverjar skálar eða eitthvað álíka rusl, en inn á milli kom alveg Kitchen Aid og Carmen rúllur og þess háttar fínerí.

Einn daginn stóð risastórt píanó inn á miðju stofugólfi. Ég veit ekkert í hvaða brasi pabbi var þá en ég man að það seig aðeins í mömmu, enda spilaði enginn á píanó í fjölskyldunni.

 

Pabbi náði  samt eins og alltaf að snúa sig út úr þessu og á einhvern undraverðan hátt tókst honum að sannfæra mömmu um það að ég væri að fara í píanónám! Sjálfur hafði ég auðvitað ekki hugmynd um það, þarna var ég 12-13 ára nýkominn heim úr einhverjum kommúnista sumarbúðum í Austur-Þýskalandi sem pabbi sendi mig í og hafði aldrei snert hljóðfæri. Hélt hvorki lagi né takti.

 

En einhvernveginn gerðist þetta nú samt, ég fór í tónlistarskóla og í dag - er ég svo sem ekkert sérstakur á píanó - en ég get með góðri samvisku kallað mig tónlistarmann og hef semsagt, út af þessu rugli í pabba í gamla daga, haft fínar tekjur og ekki síst ómælda gleði af því að spila og semja tónlist undanfarin ár og áratugi. Mikið óskaplega sem ég er þakklátur pabba fyrir það.

 

Ég nefni þetta kannski fyrst og fremst vegna þess að á þessum tíma var ekkert sem benti til þess að það væri neitt listrænt í mínu eðli. Ég var bólugrafið, bóknámshneigt barn og það fór ekkert fyrir mér í skóla. Vann glaður í mínum vinnubókum, kennararnir þurftu ekkert að hafa fyrir mér og engin ástæða þótti til að beina mér á einhverjar aðrar brautir. 

 

Kannski er þessi saga eins og svo margar aðrar fúlar sögur, að hún segir okkur ekki neitt. En hún gæti minnt okkur á mikilvægi þess að börn og unglingar fái tækifæri til þess að prófa allskonar hluti.

 

Meðal annars þess vegna er ég óendanlega þakklátur fyrir það hvað við sjálf stöndum duglega í lappirnar þegar vondar hugmyndir um fyrirkomulag náms og kennslu á öllum skólastigum koma fram. Sorglega oft á kostnað þess skemmtilega; leiksins, valgreina, söngleikja og annarra skapandi verkefna sem við sjálf látum okkur detta í hug að fást við. 

 

Við sjálf erum nefnilega alls ekki svo galin, en samt keppast kerfin í kringum okkur við að hafa vit fyrir okkur, mæla árangur okkar og vinnuframlag og kvarta yfir kostnaðinum sem af okkur hlýst. Alltaf eigum við að gera betur, taka fleiri verkefni að okkur - og mæta á fleiri fundi.       

 

Og oftar en ekki eru okkar viðbrögð að fara í vörn. Sem er ósköp eðlilegt, en ansi lýjandi. Hugsið ykkur orkuna sem við höfum eytt í að svara fyrir fríin okkar, starfsdagana, árangur í lestri, brottfall úr framhaldsskóla og ég veit ekki hvað. Ég held í fúlustu alvöru að við þurfum að bera miklu, miklu meiri virðingu fyrir okkur sjálfum og setja öðrum mun skýrari mörk hvað okkur varðar.

 

Að mínu viti erum við til að mynda komin á algjöra endastöð orðagjálfurs. Þar þurfum við að setja mörk. Í nýrri menntastefnu eru boðaðar breytingar á aðalnámskrám og ef það stendur til enn eina ferðina að stefna öllum helstu og elstu fræðimönnum þjóðarinnar (með fullri virðingu fyrir þeim) saman  og láta þá setja öll fínu og flottu hugtökin sem þeir kunna niður á blað þá verðum við að segja stopp. Eins og góð fagmanneskja sagði við mig í dag: „Það er betra að hafa eina blaðsíðu sem maður fer eftir en þrjátíu sem maður fer ekki eftir.“

 

Við þurfum líka að hugsa lengra fram í tímann. Nú er búið að boða menntastefnu til 2030. Og hvað? Væntanlega eyðum við dýrmætum tíma og orku í að þrasa um hana og áður en við er litið er klukkan orðin. 9-10 ár er ekki neitt í menntamálum. 

 

Síðast en ekki síst verðum við að ræða það í fullri alvöru hvort besta rekstrarform leik- grunn- og tónlistarskóla sé að 69 sveitarfélög þar sem rúmur helmingur er með færri en 1000 íbúa standi undir þjónustunni. Þetta er risastórt samfélagslegt mál, sem á ekki bara við það sem snýr beint að skólakerfinu. Margt af því sem við erum að glíma við dags daglega heyrir jú undir heilsugæslu, félagsþjónustu og jafnvel löggæslu. Þar sitjum við bara alls ekki öll við sama borð. 

 

Þetta verðum við að ræða af yfirvegun og sanngirni, án þess að nokkur maður fari í vörn. Ég veit vel að þetta leysist ekki á einni nóttu með sameiningarvaldboði og ég veit líka að sveitarfélögin eru öll af vilja gerð til að gera vel, en það er bara ekki nóg.

 

Það fylgir því flækjustig að tveir aðilar (ríki og sveitarfélög) reki þetta kerfi okkar. Allt of margt fellur milli kerfa og fjármögnun verkefna er of oft ekki á hreinu. Nú er til dæmis búið að boða um margt ágætt farsældarfrumvarp og sveitarfélögin telja sig vita að peningurinn sem fylgir frá ríkinu dugi ekki til. Kunnuglegt stef.  

 

Að lokum langar mig einfaldlega að biðja ykkur að kjósa mig. Ég er kolómögulegur í kosningabaráttu, mér er meinilla við að bögga vinnandi fólk, ég mun ekki hringja í neinn eða bombardera facebook hópana ykkar. En ég er sjálfur á Facebook og er alltaf til í spjall.

 

Takk fyrir mig   

Við þurfum að vera á verði

23. október 2021

Það er margt gott í skólakerfinu á Íslandi, þótt vissulega sé mikilvægt að gera betur á mörgum sviðum. En það er ekki síður mikilvægt að passa að ekkert verði aftur með jafn einbeittum hætti gert verra, líkt og raunin var þegar ráðist var í þá vanhugsuðu aðgerð að stytta nám til stúdentsprófs.

 

Raunar er óvarlegt af mér að segja að aðgerðin hafi verið vanhugsuð því undirbúningur hennar stóð yfir leynt og ljóst frá miðjum 10. áratug síðustu aldar allt þar til henni var endanlega hrint í framkvæmd 20 árum síðar. Maður skyldi ætla að á 20 árum hefði gefist nægur tími til að hugsa málið vandlega, hlusta á ólík sjónarmið og skoða málið vel frá öllum hliðum, en hugsun þeirra sem að breytingunni stóðu virðist óneitanlega hafa verið ansi markmiðsháð; markmiðið var klárt í þeirra huga og öll rök sem féllu að því tekin góð og gild, önnur ekki.

​

Ég var einn þeirra fjölmörgu sem bentu á allskonar meinbugi á þessari fyrirætlan. Eitt af því sem ég talaði um var samanburður á stöðu danskra og íslenskra ungmenna, en okkur þykir oft nærtækt að miða okkur við Dani. Í Danmörku var skólaár framhaldsskólanema síðast þegar ég vissi 7 vikum lengra en á Íslandi. Það er ýmislegt hægt að gera á 7 vikum, t.d. að syngja í kór, keppa í Gettu Betur eða setja upp leiksýningu, en allt tómstundastarf í framhaldsskólum á undir högg að sækja eftir styttinguna.

​

Til að liðka fyrir skilum milli skólastiga áttu grunnáfangar í ýmsum bóklegum fögum að færast niður í grunnskólana. Án þess að nein sérstök aukning á tímum í viðkomandi fögum kæmi til í grunnskólunum. Í því sambandi er ágætt að nefna að skilgreindir nemendadagar í grunnskólum í Danmörku eru 200 á hverju skólaári, á móti 180 hér á landi. Það þýðir að við lok 10 ára grunnskólagöngu (1.-10 b. á Íslandi og 0.-9. b. í DK) hafa danskir unglingar verið einu íslensku skólaári og 20 dögum lengur í skóla en íslenskir jafnaldrar þeirra.

​

Aukinheldur eru dönsk börn lengur á hverjum degi í skólanum, en íslensk börn. Eftir síðustu breytingar á danska skólakerfinu, Reformen frá 2014, segjast Danir nú eiga heimsmet í lengd grunnskóladags. Í lista OECD frá árinu 2014 kemur fram að gert er ráð fyrir að dönsk skólabörn fái tæplega 11 þúsund klukkustundir í skilgreinda kennslu í skólanum á 10 ára grunnskólagöngu, en íslensk börn um það bil 8000 klukkustundir. Nú veit ég vel að sitthvað er magn og gæði og veit líka að í DK er engin sérstök hamingja með þetta nýja heimsmet, en þarna er þó augljós aðstöðumunur.

​

Annað sem dönsk ungmenni hafa fram yfir íslenska jafnaldra sína þegar 10 ára skólagöngu lýkur er að þá hafa þau sem ekki eru alveg tilbúin til að fara í framhaldsskóla allskonar val um skólaúrræði, meðan þau eru að átta sig á lífinu og framtíðinni í rólegheitunum. Geta farið í efterskole, 10.klasse, EUD, frie fagskoler og margt fleira. Allt þetta vantar tilfinnanlega hér.

 

Ég gæti rausað endalaust um mikilvægi þess að við kennarar látum í okkur heyra þegar delluhugmyndum eins og styttingu náms til stúdentsprófs er þröngvað upp á okkur. Einn angi þeirrar umræðu snerist til að mynda um að færa bóklegt nám í auknum mæli niður í leikskólana og draga þar með úr vægi leiksins sem er ekki bara að mínu mati, heldur mér miklu fróðari manna eins og t.d. Pasi Sahlberg, grundvallarþáttur í því að verða manneskja.

 

Eitt af því sem mér finnst Ragnar Þór, fráfarandi formaður KÍ, hafa gert vel í sínu starfi er að sjá í gegnum vondar hugmyndir á borð við þessa og benda á gallana með haldbærum rökum þar sem hann hefur borið gæfu til að skoða málin frá ólíkum hliðum.

Það ætla ég líka að kappkosta að gera, nái ég kjöri.

​

21. október 2021

Að vera kostnaðarliður

Á tyllidögum erum við kennarar framlínustarfsfólk sem gegnir mikilvægasta starfi í heimi. Aðra daga erum við langstærsti kostnaðarliður vinnuveitenda okkar.

Um áramót renna kjarasamningar fimm aðildarfélaga KÍ við sveitarfélögin út og skilaboðin úr þeirri átt eru skýr, það er enginn peningur til. Ekki frekar en fyrri daginn.

 

Vitanlega snýst kennarastarfið um margt annað en krónur og aura, t.d. aðbúnað. Kulnunareinkenni eru vaxandi meðal kennara og marga streituvalda má rekja til aðstæðna sem vart geta talist boðlegar.

 

Af eigin reynslu sem deildarstjóri stoðþjónustu við grunnskóla veit ég að málefni nemenda sem þurfa sértæk úrræði geta reynst kennurum og öðru starfsfólki sem að slíkum málum koma afar þungbær. Ekki síst að upplifa dug- og úrræðaleysi þeirra stuðningskerfa sem þarf að leita til: Langir biðlistar eru eftir þjónustu utanaðkomandi sérfræðinga s.s. sálfræðinga og talmeinafræðinga, að ekki sé talað um þegar um enn erfiðari mál er að ræða þar sem þarf að reiða sig á þjónustu BUGL eða hreinlega að koma barni út af heimili, í mannsæmandi aðstæður.

 

Að vera grunnskólakennari með 25 barna hóp þar sem 10 eru með einhverskonar greiningar, þar af 2-3 með verulegar raskanir, er ekki öfundsvert hlutverk. Að vera leikskólakennari á yfirfullri og undirmannaðri deild þar sem lítill sem enginn tími gefst til faglegs undirbúnings er ekki síður lýjandi.

 

Í öll þau ár sem ég hef barist fyrir réttindum barna með sérþarfir hef ég ekki tölu á því hversu oft ég hef heyrt að það sem ég fer fram á kosti of mikið. Ég verð að segja að mér leiðist að við kennarar og börnin sem við störfum með séum fyrst og fremst þungbær kostnaðarliður.

 

Það er staðreynd sem þarf að fara að ræða í alvöru að stór hluti sveitarfélaga ræður illa við rekstur skóla og stoðþjónustu. Í margumræddum PISA könnunum má sjá að marktækur munur er orðinn á árangri nemenda á höfuðborgarsvæðinu og í hinum dreifðari byggðum.

 

Í þessum orðum mínum felst engin stríðsyfirlýsing eða vanþóknun, þetta er einfaldlega augljóst vandamál sem við þurfum að leysa í sameiningu - án þess að nokkur einasti maður fari í vörn.

Örlítið um streitu og kulnun

18. október 2021

Eitt af því sem verður ekki leyst með löngum pistlum, upphrópunum og hástöfum eru vaxandi streitu- og kulnunareinkenni meðal kennara. Betri greining á vandanum þarf vitanlega að fara fram, en það þarf líka að láta verkin tala, sumt af því sem þarf að laga er okkur nefnilega fullkunnugt um nú þegar.

​

Til að mynda væri upplagt að endurskoða reglur sjúkrasjóðs KÍ. Við borgum öll dágóðar upphæðir í þann sjóð, en samt sem áður dugar styrkur til sálfræðiþjónustu eftir skatt rétt fyrir um það bil einu og hálfu viðtali. Þá eigum við sem búum úti á landi eftir að borga ferðakostnað, því á mörgum stöðum á landsbyggðinni er hreinlega enga sálfræðiþjónustu að fá.

​

Annað sem þarf að ræða af fullri alvöru er þjónusta við nemendur með sérþarfir. Ég hef starfað heilmikið við sér- og stuðningskennslu og það er margt í þeim efnum sem getur tekið á. Ekki síst að upplifa dug- og úrræðaleysi þeirra stuðningskerfa sem þarf að leita til: Langir biðlistar eru eftir þjónustu sálfræðinga, talmeinafræðinga, félagsráðgjafa o.s.frv., að ekki sé talað um þegar um enn erfiðari mál er að ræða þar sem þarf að reiða sig á þjónustu BUGL eða hreinlega að koma barni út af heimili, í mannsæmandi aðstæður. Barátta umsjónarkennara, sérkennara og fleiri sem að slíkum málum koma getur tekið mjög á. Þar tala ég af reynslu, bæði sem umsjónarkennari og deildarstjóri stoðþjónustu.

 

Auðvitað veit að það vakir ekkert nema gott fyrir þeim sem skapa ytra umhverfi okkar sem störfum í skólum landsins en oft er það þó svo að því sem ætlað er að bæta skólastarf gerir á endanum illt verra. Mér dettur t.d. í hug síðasta innleiðing námsmats. Nú hefur ný menntastefna verið samþykkt á Alþingi, í henni eru m.a. boðaðar breytingar á námskrám og alls konar nýjar árangursmælingar. Hvort tveggja getur valdið deilum, með tilheyrandi streitu. Ég hef sagt það oft áður að mér er til efs að verk margra annarra stétta séu mæld og vegin af jafn mikilli áfergju og verk okkar kennara.

Það eitt er streituvaldur. Að ekki sé talað um allt hitt.

​

​

Minni umbúðir, meira innihald

17. október 2021

Það er kannski ljótt að segja það, en stundum finnst mér hjalið í okkur sem teljum okkur vita allt um skólamál svolítið eins og að fara í golf. Viðfangsefnið göfugt, en umbúðirnar merkilega uppskrúfaðar og skrautlegar. Trúið mér, maður verður ekkert betri í golfi þótt maður sé í bjánalegum krókódílabol.

 

Við kennarar eigum það margir sammerkt að okkur finnst gott að hafa orðið. Hættan við þessa ríku tjáningarþörf okkar er sú að á endanum nenni enginn lengur að hlusta. Í síbreytilegum heimi þar sem athyglisspönn okkar allra er alltaf að styttast held ég að það sé hollt að muna að við höfum tvö eyru en aðeins einn munn. Mér fróðara fólk heldur því alltént fram að ástæða sé fyrir því.

 

Líklega eru kjarasamningar kennara nærtækasta dæmið um það hvað við erum lagin við að gera einfalda hluti flókna, ég man varla eftir því að nokkurt félag innan KÍ hafi gert kjarasamning sem fleiri en tveir leggja sama skilning í. Sá tími sem hefur farið í að karpa um túlkun kjarasamninga er a.m.k. ansi mikill hjá okkur mörgum. Nú um áramót renna samningar 5 aðildarfélaga KÍ út, samtals um 300 blaðsíður af efni!

 

Mikið flækjustig hefur sömuleiðis verið í kringum námskrár og námsmat. Svo mikið að það hefur valdið deilum; milli heimila og skóla, grunn- og framhaldsskóla og milli samninganefnda grunnskólakennara og sveitarfélaga. Það þarf svosem ekki að koma á óvart því í hvert skipti sem ný námskrá á einhverju skólastigi lítur dagsins ljós hefur nokkur þúsund orðum verið bætt við, en fátt tekið út í staðinn.

 

Nú er vinna hafin við innleiðingu á nýrri menntastefnu sem gildir til ársins 2030. Ég fagna því vitanlega, en geld um leið varhug við ýmsu sem þar er boðað. Til dæmis ýmiss konar árangursmælingum á skólastarfi. Mér er til efs að verk margra annarra stétta séu mæld og vegin af jafn mikilli áfergju og verk okkar kennara. Svo það sé nú sagt. Eins vona ég að það endurmat á aðalnámskrám sem boðað er í stefnunni verði unnið í góðu samstarfi við okkur sem notum þær í starfi. Vonandi ber okkur gæfu til að gera loksins heiðarlegar námskrár sem eru í tengslum við raunveruleikann. Það hefur ekkert uppá sig að drekkja okkur í orðskrúði og kollvarpa öllum hugmyndum um skólastarf á 10-15 ára fresti.

 

Og nú er þessi pistill orðinn allt of langur. 

11. október 2021

Vinnuaðstaða í leikskólum

Ég hef tjáð mig töluvert um vinnuaðstöðu leikskólakennara og skilningsleysi margs sveitarstjórnarfólks á starfi þeirra, til dæmis á fundum fræðslunefndar í minni heimabyggð. 

​

Hér er athyglisverð frétt af vef KÍ um niðurstöðu starfshóps um vinnuaðstöðu barna og fullorðinna í leikskólum. 

 

Margt merkilegt kemur hér fram, t.d. að faglegt frelsi leikskólastjóra til ákvarðanatöku um allskyns málefni virðist lítið, sérstaklega í sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarinnar. Til dæmis upplifir ekki nema helmingur leikskólastjóra að hann hafi umboð til að taka ákvörðun um fjölda barna í leikskólum. Ennfremur virðist reglugerð um húsnæði og vinnustaði (581/1995) þar sem m.a. er kveðið á um lágmarksviðmið um rými fyrir hvern fullorðinn einstakling á vinnustað víða virt að vettugi.

Næsti formaður?

Birt á Vísi 4. október 2021

Heimirx21.png

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formennsku í Kennarasambandi Íslands. Þegar þessi orð eru rituð, einum degi áður en frestur til að tilkynna um framboð rennur út, er ég einn fjögurra frambærilegra frambjóðenda. 

​

Eins og aðrir frambjóðendur til embættisins geri ég mér fulla grein fyrir því að formaður KÍ þarf að gæta hagsmuna allra félagsmanna, hvar sem þeir starfa. Ég kem úr grunnskólanum og þekki málefni hans vel, sérstaklega hvernig staðan er utan Reykjavíkur. Verandi tónlistarmaður í hjáverkum þekki ég málefni tónlistarskólans sæmilega, tók meðal annars óbeinan þátt í kjarabaráttu tónlistarkennara í síðasta verkfalli. Helstu áherslur félagsfólks sem starfar á hinum tveimur skólastigunum þekki ég á yfirborðinu, en er þessa dagana í óða önn við að kynna mér þær betur. 

 

Ég hef raunar aldrei stundað nám í leikskóla sjálfur, það þótti of mikið vesen í sveitinni, en á móti kemur að ég var óvenju lengi í framhaldsskóla. Var í FSu í 5 ár og kláraði 29 einingar. Það gefur því auga leið að ég var enginn sérstakur aðdáandi styttingar náms til stúdentsprófs. Kannski er ástæða þess að ég eyddi framhaldsskólaárunum í að leika mér einmitt sú að ég hafði aldrei áður leikið mér í skóla. Ég kunni það hvorki né þorði því í grunnskóla. Þar var ég með prúðari nemendum, afburða bóknámsmaður með litla hreyfifærni. 

 

Meðal annars vegna þessarar reynslu minnar er ég mikill talsmaður leiks, hreyfingar, útiveru og allskonar uppbrots í skólastarfi - á öllum skólastigum - og get orðið ansi þver þegar heftandi hugmyndir um skipulag náms og kennslu eru settar fram, að því er virðist í fúlustu alvöru. Til að mynda að það þurfi að auka vægi bóklegs náms í leikskóla og það muni bjarga andliti okkar í alþjóðlegum samanburði að streða við það oftar á dag að læra íslensku og náttúrufræði, á kostnað til að mynda valgreina sem eru í mörgum skólum í senn lýðræðislegasta og líflegasta viðfangsefni sem nemendur glíma við. Með öðrum orðum treysti ég kennurum og skólastjórnendum á öllum skólastigum betur til að skipuleggja skólastarfið en þeim sem telja að hægt sé að mæla öll okkar verk og laga með tilfærslum á dálkum, s.s. gildum í viðmiðunarstundaskrá. 

 

Það er ótalmargt framundan hjá okkur í KÍ. Fyrst er að telja að samningar við FL, FG, FT, FSL og SÍ renna út um áramót. Við þær kjaraviðræður er ágætt að hafa það hugfast að fyrsta aðgerðaráætlun fyrir nýja menntastefnu hefur nú verið lögð fram og ljóst að mikil vinna mun fylgja innleiðingu hennar. Þá mun svokallað farsældarfrumvarp einnig kalla á mikla vinnu innan skólanna. Tryggja þarf að þessum góðu verkefnum og göfugu markmiðum fylgi nægt fjármagn þannig að við sem tökum að okkur vinnuna fáum greitt fyrir hana. 

 

Svo væri líka hressandi að gera eins og einn kjarasamning sem er ekki það flókinn að ótal vinnustundir fari í að rífast um hvað standi í honum.

​

Virðingarfyllst, 

​

Heimir Eyvindarson

Dönskukennari og deildarstjóri í Grunnskólanum í Hveragerði

Frambjóðandi til formennsku í Kennarasambandi Íslands

bottom of page