top of page

Um mig og mína

211806284_10165369798945324_594611617055

Ég er sonur hjónanna Eyvindar Erlendssonar og Sjafnar Halldórsdóttur.
Ég er næstyngstur fimm systkina og af sumum þeirra talinn frekastur.

Fyrstu mánuði ævi minnar var talið að ég væri undrabarn, sem skýrist af því að sá almenni skilningur var uppi í fjölskyldu móður minnar að bein tengsl væru milli slefmagns ungabarna og gáfnafars, en ég þótti slefa óeðlilega mikið. Sá sameiginlegi skilningur ríkir nú í fjölskyldunni að ég hafi afsannað þessa kenningu. 

Ég er grunnskólakennari að mennt og er hálfnaður með meistaranám í menntavísindum. Aukinheldur er ég lærður blómaskreytir/garðyrkjufræðingur. Ég hef samið dálítið af námsefni í dönsku fyrir grunnskóla, alls fjóra námsvefi. Sá nýjasti TEMPO kom út hjá MMS í janúar s.l.  

Ég kalla mig líka stundum tónlistarmann, en ég er hljómborðsleikari
hljómsveitarinnar Á móti sól og hef verið það frá stofnun sveitarinnar árið 1995. Ég er afkastamesti laga- og textahöfundur sveitarinnar og hef verið svo heppinn að nokkur lög sem ég hef samið hafa orðið þræl vinsæl. 

Allt til ársins 2010  sá ég einnig um rekstur hljómsveitarinnar, fyrst í mínu eigin nafni og síðan undir merkjum Samyrkjubúsins sf. sem við félagarnir stofnuðum utan um reksturinn. Samyrkjubúið sf. hefur gefið út fjóra geisladiska

með Á móti sól og auk þess fyrsta geisladisk með Ingó og Veðurguðunum (Bahama, Gestalistinn o.fl.) og einn jóladisk með söngsveitinni 3raddir&Beatur.

​

AMS 2.jpg

Ég er stundum spurður að því hvaða lög eftir mig eru í mestu uppáhaldi hjá mér. Ég nefni yfirleitt alltaf þessi: 

​

Hvar sem ég fer

Árin

Verst að ég er viss

​

Svo er ég alltaf ferlega ánægður með jólalagið mitt Þegar jólin koma 

​

Ég hef starfað við kennslu í Grunnskólanum í Hveragerði síðan árið 2005 og haustið 2013 hóf ég störf sem deildarstjóri sérkennslu við skólann. Undanfarin ár hef ég verið deildarstjóri unglingastigs og kennt dönsku í 6. - 10. bekk. Af fyrri störfum sem ég hef gegnt má nefna lagerstörf, ýmiskonar afgreiðslustörf, kjötsölu, verslunarrekstur, smíðavinnu og blómaskreytingar.

Ég er alinn upp á pólitísku heimili og hef haft áhuga á stjórnmálum allt frá því ég var unglingur. Ég hef kosið eitt og annað í gegnum tíðina og ávallt áskilið mér rétt til að skipta um skoðun. Þrátt fyrir mikinn áhuga á stjórnmálum hef ég ekki tekið mikinn þátt í pólitísku starfi fyrr en í kringum Alþingiskosningarnar 2013, þegar ég tók það að mér að skipa 3. sæti á lista Bjartrar Framtíðar í Suðurkjördæmi. Kosningabaráttan gekk ágætlega og 1. maður listans komst inn á þing. Þá skipaði ég 7. sæti A-listans, sameiginlegs framboðs Samfylkingar, VG og Framsóknar, sem skíttapaði sveitarstjórnarkosningum í Hveragerði 2010 og hef eftir það tekið dálítinn þátt í bæjarmálunum. Setið í nefndum og þess háttar. 

Ég var vinstrisinni í æsku, enda alinn upp af foreldrum sem keyptu Þjóðviljann og sendu mig 12 ára gamlan í fimm vikna sumarbúðadvöl til Austur-Þýzkalands. Þar sá ég í fyrsta sinn konu með yfirskegg. Hún var að æfa kúluvarp. 
Smám saman færðist ég yfir á miðjuna og kalla mig frjálslyndan jafnaðarmann í dag, en er óflokksbundinn. 
 

Einu sinni var ég nokkuð farsæll fjölskyldufaðir og vísir að eiginmanni, en eftir 30 ára samband og 3 börn skildu leiðir. Eins og gengur. Í sjálfu sér allt í góðu með það, okkur kemur vel saman og njótum þess enn að eiga okkar vel heppnuðu börn: Eyþór, Ólaf Bjarka og Andreu Sjöfn. Eyþór starfar sem verkfræðingur hjá SET á Selfossi, en hin tvö eru í sitt hvorum háskólanum. Ólafur Bjarki í HR og Andrea Sjöfn í HÍ. 

BeFunky-collage.jpg

Ég er í sambúð með Söndru Sigurðardóttur sem er íþróttafræðingur og grunnskólakennari með MBA prófgráðu.

Sandra á 3 börn, Birtu Marín sem starfar við grunnskólann í Hveragerði og Bjarna Marel og Manúellu Berglindi sem bæði stunda nám við skólann. Manúella í 3. bekk og Bjarni í 7. bekk. 

 

Ég er óforbetranlegur nörd á allskonar sviðum. Ég elska spurningaspil og allskonar alfræðiþrugl. Þá er ég forfallinn Liverpool aðdáandi, sit í stjórn Liverpoolklúbbsins á Íslandi og er ritstjóri Rauða Hersins, sem er tímarit klúbbsins.  

bottom of page