top of page

Eldri greinar um menntamál

Screenshot 2021-10-03 at 14.54.02.png

Fyrir þau ykkar sem vilja kynnast viðhorfum mínum betur hef ég sett hér inn örfáar gamlar greinar um menntamál sem ég þori að deila með ykkur. Sumt stenst sæmilega tímans tönn, annað síður

Að viðhalda barninu í sjálfum sér 

Birt í Sunnlenska fréttablaðinu í október 2012

Ég hef predikað það yfir krökkunum sem ég kenni dags daglega, að þeim liggi ekkert á að verða fullorðin. Allir þessir spennandi hlutir sem sumir þeirra virðast varla geta beðið með að upplifa geti alveg beðið í nokkur ár til viðbótar. Ég hef sagt þeim að ef maður passar sig á því að gleyma aldrei barninu innra með sér trúi ég því að manni gangi betur að fóta sig í lífinu. Flýti sér hægar.

Börn leika sér almennt blygðunarlaust. Þau skammast sín ekki fyrir að leika sér í leikjum sem þeim finnst skemmtilegir, eða að leika sér með dót sem þeim finnst spennandi. Á einhverjum tímapunkti í lífi flestra okkar kviknar síðan óttinn við álit náungans. Þá þorum við ekki lengur að viðurkenna að okkur finnist gaman í eltingarleik eða feluleik, eða höfum ennþá gaman af bílum og dúkkum eða tölvuleikjum þar sem engum er nauðgað og enginn er limlestur. 

Oft er það svo að það er einhver ákveðinn hópur, til dæmis í bekknum, sem leggur línurnar um það hvað er í lagi og hvað ekki. Hvaða fötum er í lagi að klæðast, hvaða tónlist er kúl, hvaða tölvuleikir eru svalir. Hverskonar hegðun er ásættanleg. Þeir sem ekki fylgja þessum áherslum falla ekki í kramið. Nema þeir séu þeim mun sterkari persónuleikar. Það er erfitt að synda á móti straumnum.

Það er þessvegna mjög mikilvægt að við sem erum í kringum börnin á daginn og eigum að heita fullorðin reynum að gera hvað við getum til að létta á spennunni sem fylgir því að þurfa sífellt að hafa áhyggjur af því hvort þetta eða hitt áhugamálið eða viðfangsefnið sé nægilega hipp og kúl fyrir hópinn. Brýna það fyrir börnum og unglingum að það sé í lagi að leika sér. Það sé ekkert ósvalt við það. Leika sér sjálfur með þeim ef svo ber undir og sýna að enginn sé of fullorðinn til þess að taka þátt í skemmtilegum leik, hafi hann á annað borð heilsu til þess.

Ég er á fimmtugsaldri og ég hef gaman að því að leika mér. Ef ég lifi svo lengi að ég komist á elliheimili ætla ég að hafa Playstation tölvu á herberginu og spila barnalega ævintýraleiki.  Ég verð reyndar mjög líklega orðinn svo stífur og stirður að ég mun alltaf tapa. Þá skora ég bara á hina ellibelgina í eltingarleik eða hollinn skollinn.

Aukin hagsæld?

Birt í Sunnlenska fréttablaðinu í maí 2013

Svonefndur samráðsvettvangur um aukna hagsæld á Íslandi hefur nú skilað skýrslu um aðgerðir sem eiga að stuðla að auknum langtímahagvexti á Íslandi. Mesta athygli hafa hugmyndir hópsins um sameiningar sveitarfélaga og aðgerðir í menntamálum vakið.
 
Hópurinn leggur  meðal annars til að sveitarfélögum verði fækkað verulega, að framhalds- og grunnskólum verði fækkað og fjölgað verði í bekkjardeildum.

Sjálfsagt er hægt að færa fyrir því ágæt rök að þessar aðgerðir hafi einhvern peningalegan sparnað í för með sér. En það er ekki þar með sagt að það sé skynsamlegt að ráðast í þær allar. Til dæmis sé ég ekki hagsældina sem á felast í því að fjölga í bekkjardeildum.   

Ég er í sjálfu sér ánægður með að það skuli vera gerð tilraun til þess að koma af stað þverpólitískri samræðu um aukna hagsæld hér á landi. Mér finnst líka sumt af því sem ég hef kynnt mér í tillögum hópsins hljóma skynsamlega. Svo sem hugmyndir um sameiningar sveitarfélaga. En það kemur mér óþægilega á óvart hve vanhugsaðar tillögur hópsins í menntamálum virðast.

Í þessum stutta pistli um daginn og veginn gefst lítið svigrúm til þess að ræða þau mál út í hörgul, en þó er hægt að benda á örfá atriði sem gefa skakka mynd af kostnaði við skólakerfið á Íslandi í samanburði við önnur lönd.

Kostnaður við að halda úti skólum í dreifðari byggðum landsins er til dæmis augljós. Það kemur kannski betur út í Excel skjalinu að leggja niður grunnskólann á Kirkjubæjarklaustri og keyra börnin frekar í Vík. En hefur það í för með sér aukna hagsæld fyrir íbúa á því svæði?

Útgjöld til skólamála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu gefa líka skakka mynd. Í frægri McKinsey skýrslu, sem vinna hópsins byggir að einhverjum hluta á, kemur einmitt fram að verg landsframleiðsla á mann hér á landi er mun minni en í samanburðarlöndunum.  Sá samanburður er þess vegna hæpinn.

Og svo mætti lengi telja. 

Það breytir því ekki að ég fagna umræðunni og vona að hún verði til góðs.

-ði, -di eða ti?

Birt í Sunnlenska fréttablaðinu í maí 2012 og á Krítin.is í október 2012

Eitt af því sem íslensk börn þurfa að læra á 10 ára grunnskólagöngu er að þekkja muninn á veikri og sterkri beygingu sagnorða. Hversvegna þeim er gert að læra þetta hef ég reyndar aldrei skilið. Ekki frekar en ég skil afhverju þau þurfa að læra að greina setningar í frumlag, andlag o.s.frv. Ég skildi það ekki þegar ég var sjálfur í grunnskóla og enn síður nú, þegar ég kenni í grunnskóla. 

Ég hef líka velt því fyrir mér hvers vegna börn þurfa að læra gardínudeilingu þegar hægt er að deila með einum takka á reiknivél. Reiknivélar eru til á hverju heimili. Aukinheldur eru þær í öllum gsm símum. Hvers vegna má ekki nota þær nema stundum veit ég ekki. Enda veit ég svo sem ekki margt. Ég hef spurt mér fróðari menn, en um þetta virðast skiptar skoðanir.

Íslenskt skólakerfi er þrátt fyrir þetta tuð í mér um margt býsna gott. Ýmsu má þó breyta. Það er alltént mín skoðun. Tæknigrúsk, tónlist, dans, leiklist, tjáning og í raun allt sem viðkemur sköpun má að mínu viti fá meira vægi. Og margt fleira. En spurningin er alltaf, á kostnað hvers?

Hvað börn eiga að læra í grunnskóla er ákveðið af menntayfirvöldum og gefið út í Aðalnámskrá grunnskóla. Í hvert skipti sem ný Aðalnámskrá kemur út hefur einhverju verið bætt við. Einhverju sem talið er nauðsynlegt að kenna íslenskum börnum. Sjaldgæfara er að eitthvað sé tekið út og nú er svo komið að engin leið er að komast yfir allt sem kveðið er á um í námskránni. Jafnvel þótt grunnskólaskylda væri lengd í 20 ár. 

Í nýútkominni Aðalnámskrá kveður þó við nýjan tón, því nú fá skólar meiru að ráða um það hvað þeir kenna og hvað ekki. Ég þykist vita að í mörgum skólum sé því tækifæri tekið fegins hendi. Ég veit til að mynda að á mínum vinnustað er nú þegar farin af stað vinna við að útfæra skólanámskrá sem verður sjálfstæðari en fyrri námskrár, ef svo má að orði komast. Í þeirri vinnu er m.a. leitast við að svara því hvaða þekkingu börn þurfa að búa yfir eftir 10 ára grunnskólagöngu. 

Ég get ekki sagt til um hvað börnin sem byrja í skóla í haust þurfa að kunna eftir 10 ár, en ég er nokkuð viss um að þau þurfa ekki að vita að sagnorð sem beygjast veikt enda á -ði, -di eða –ti í þátíð. 

PISA útkoman er mér að kenna

Birt í Sunnlenska fréttablaðinu í desember 2013

Þegar þetta er ritað er nýbúið að birta niðurstöður úr PISA könnun, sem lögð var fyrir 10. bekkinga á Íslandi og jafnaldra þeirra í 64 löndum árið 2012.

Eins og venjulega þegar niðurstöður samanburðarkannana eru ekki eins og best verður á kosið hrekkur fólk  ýmist í árásar- eða varnarham. Kennarar og skólastjórnendur fara í vörn meðan ýmsir aðrir þjóðfélagshópar spyrja í forundran hvað í ósköpunum sé í gangi í skólum landsins.  

Ég skil vel að fólk spyrji og ég skal fúslega taka á mig nokkra sök. Ég er kennari og deildarstjóri í grunnskóla og ég viðurkenni að stundum koma dagar þar sem ég stend mig ekki nægilega vel í vinnunni. Stundum er ég utan við mig og annars hugar og stundum koma dagar þar sem ég er latur og nenni  hreinlega ekki að gera hlutina eins vel og ég get. 

Gleymum þó ekki að líta á björtu hliðarnar. Niðurstöður PISA sýna að skólabragur á Íslandi hefur batnað og íslenskum ungmennum líður betur en áður í skólanum.  Það eru afar ánægjuleg tíðindi.

Kannanir á borð við PISA geta haft mikið gildi fyrir skólastarf og þar með framtíð barnanna okkar. Það er mikilvægt að við nýtum niðurstöðurnar sem allra best og reynum að læra af þeim. Leggjumst ekki í vörn. Ráðumst heldur ekki hvert á annað. Ræðum málin af yfirvegun og skynsemi og reynum að þokast fram á við.

Ég ætla að reyna að standa mig betur í mínu starfi í framtíðinni. Ég lofa. Ég veit að ég get gert betur og ég trúi því að þannig geti ég stuðlað að því að líf nemenda minna verði innihalds- og hamingjuríkara. 

Ég vona að þú lesandi góður sért líka tilbúinn til þess að leggja þitt af mörkum. Gildir þá einu hvort þú ert kennari, foreldri, skólastjóri, bæjarstjóri, fréttamaður, prestur eða múrari. Virkur eða óvirkur í athugasemdum í kommentakerfi DV.  Það þarf jú heilt þorp til að ala upp barn, eins og afríska máltækið segir. Höfum það hugfast. Við berum öll ábyrgð og verðum öll að gera betur. Það er okkur öllum fyrir bestu.

Erki Nool og félagar 

Birt í Sunnlenska fréttablaðinu í október 2014

Fyrir fáeinum vikum kom ég í fyrsta sinn til Eistlands. Erindið var alþjóðleg vinnustofa kennara, með áherslu á kennslu í forritun og upplýsingatækni, en Eistar eru þjóða fremstir í þeim efnum.

Eistar hafa verið sjálfstæð þjóð frá árinu 1991 og eins og margir muna var Ísland fyrsta land veraldar til þess að viðurkenna sjálfstæði landsins, sem og nágranna þeirra við Eystrasaltið; Lettlands og Litháens.

Fyrir heimsóknina vissi ég lítið um land og þjóð. Ég mundi reyndar eftir helvítinu honum Erki Nool sem var alltaf að vinna Nonna vin minn (Jón Arnar Magnússon) í tugþraut í gamla daga og mig rak líka minni til að hafa einhverntíma smakkað ágætan eistneskan bjór. That´s it.

Á meðan á heimsókninni stóð varð ég hinsvegar margs vísari. Ég komst m.a. að því að lífskjör í Eistlandi eru með miklum ágætum. Skuldir ríkisins svo að segja engar, menntunarstig hátt og atvinnuleysi lítið. Staðan í stuttu máli allt önnur og betri en í Lettlandi og Litháen. Og á Íslandi, ef út í það er farið.

Í eistneskum skólum er öllum kennurum skylt að flétta forritun og upplýsingatækni inn í sína kennslu, allt frá fyrsta bekk grunnskóla. Sérstök áhersla er lögð á að efla áhuga stúlkna á forritun. Litið er á aðgang að háhraða interneti sem sjálfsögð mannréttindi og út um allt land er þráðlaust net sem ekki þarf að borga fyrir. Einnig í lestum, rútum o.s.frv.

Allt frá árinu 2002 hefur rafræn stjórnsýsla verið við lýði í landinu. Þar er bókstaflega hægt að gera allt sem lýtur að opinberri stjórnsýslu á netinu, nema að gifta sig og jarða. Sem dæmi má nefna að í Eistlandi tekur 18 mínútur að hefja rekstur fyrirtækis, með öllum tilskyldum leyfum. Skiptir þá engu hvar í landinu stofnandinn er staddur.

Þrátt fyrir að við Íslendingar höfum verið sjálfstæð þjóð 47 árum lengur en Eistar held ég að við getum margt af þeim lært. Velgengni þeirra er að mínu viti gott dæmi um kosti skýrrar stefnumörkunar. Eistar hafa skýra framtíðarsýn – og hafa haft lengi - og opinber ákvarðanataka virðist ekki einkennast af handahófskenndum duttlungum. Væri ekki ráð að við kæmum okkur líka saman um eitthvað plan?

Tilgerð og tíglapeysur

Birt í Sunnlenska fréttablaðinu í febrúar 2015

Að sitja ráðstefnu háskólakennara um skólamál er svolítið eins og að fara í golf. Viðfangsefnið göfugt, en umbúðirnar merkilega uppskrúfaðar og skrautlegar.
 

Eitthvað á þessa leið skrifaði ég á Facebook vegginn minn skömmu eftir að ég sat ráðstefnu ýmissa ,,menntavísindamanna” um starfshætti í grunnskólum. Það voru svo sem ekki djúpar pælingar að baki þessum status mínum, en eftir því sem ég hugsa málið betur held ég að þetta sé ekki svo galin samlíking hjá mér. Hún passar mér að minnsta kosti býsna vel. Sjálfhverfur sem ég er dugar það mér ágætlega.  

Mér finnst gaman í golfi. Ég er reyndar ansi hreint lélegur golfari og stunda íþróttina ekki af ástríðu, lít fremur á golfið sem ágætis hreyfingu sem gaman er að iðka í góðum félagsskap. Ég hef verið í golfi í nokkuð mörg ár en á ekki marga golfhringi að baki. Líklega eru þeir að meðaltali 6-8 á ári, sem er kannski ágætis afsökun fyrir getuleysinu. Ég virði reglur um snyrtilegan klæðnað á golfvellinum, en ég á hvorki tíglapeysu né skræpóttar buxur og ekki einn einasta Lacoste bol.

Mín vegna má fólk auðvitað vera í Lacoste bolum og náttbuxum með straujuðu broti á golfvellinum, en ég get ekki að því gert að mér finnst það dálítið tilgerðarlegt. Enda leiðist mér fatasnobb, hvort heldur sem er á golfvellinum eða annarsstaðar. Vel að merkja get ég vel skilið að fólk sem stundar íþróttir klæðist vönduðum fatnaði, en ég fullyrði að maður verður ekkert betri í golfi þótt maður sé í bjánalegum bol.   

Að sama skapi finnst mér gaman að kenna og hef einlægan áhuga á menntamálum, en umræður fræðimanna finnst mér stundum verða álíka tilgerðarlegar og tíglapeysurnar á golfvellinum. Á ráðstefnunni sem ég vék að í upphafi heyrði ég til dæmis svo mikið orðskrúð að á tímabili missti ég alveg af innihaldinu. Sem þó var ljómandi áhugavert. Ég drukknaði einhversstaðar úti á akrinum eða feltinu þar sem ég átti að vera að vinna með ólíkar stoðir sem skarast innbyrðis en eiga það sameiginlegt að eiga akkeri í grenndarsamfélaginu. Eða eitthvað svoleiðis ...

Og ég sem hélt að ég væri bara að kenna.  

bottom of page