top of page

Myndbönd

​Í gær vorum við frambjóðendurnir í pallborðsumræðum á Vísi.is. Þeir sem vilja horfa á allan þáttinn geta séð hann hér

 

Þeir sem vilja kynnast mér og mínum áherslum betur mega endilega skoða myndböndin hér fyrir neðan. Þau eru öll frekar stutt og hreint ekkert svo leiðinleg heldur vona ég. 

Þetta skjáskot er úr pallborðsumræðunum, maður getur ekki alltaf verið gáfulegur 😃

Screenshot 2021-11-02 at 20.46.34.png

Framboðsfundur

Ræðan mín á framboðsfundi KÍ á Grand Hótel miðvikudaginn 27. október

27. október stóð KÍ fyrir framboðsfundi á Grand Hótel. Hér fyrir neðan er ræðan sem ég hélt þar. Ef þið skrollið aðeins neðar þá getið þið lesið skrifuðu útgáfu ræðunnar og horft á stutt myndbönd af öðru því sem ég hafði til málanna að leggja á fundinum. 

Eins og þið heyrið talaði ég aðeins of hægt þannig að ég náði ekki að koma öllu frá mér sem ég ætlaði að segja. Fyrir þá sem vilja vita meira er skrifaða útgáfan hér að neðan.  

​Hér eru líka nokkur brot af öðru því sem ég hafði að segja á fundinum.

Þeir leynast víða hæfileikarnir

Ræða á kynningarfundi frambjóðenda 27. október 2021

Ég er alinn upp á heimili afar ólíkra foreldra. Mamma var jarðbundin og nægjusöm en pabbi súrrandi listamaður með stórar, miklar og dýrar hugmyndir. Gekk um gólf, reykti og hugsaði og mamma þreif öskuna eftir hann.

 

Það gekk auðvitað á ýmsu hjá þeim eins og gengur og stundum skammaðist pabbi sín og kom þá gjarnan heim með einhverjar gjafir, svona til að milda mömmu. Oft voru þetta bara einhverjar skálar eða eitthvað álíka rusl, en inn á milli kom alveg Kitchen Aid og Carmen rúllur og þess háttar fínerí.

Einn daginn stóð risastórt píanó inn á miðju stofugólfi. Ég veit ekkert í hvaða brasi pabbi var þá en ég man að það seig aðeins í mömmu, enda spilaði enginn á píanó í fjölskyldunni.

 

Pabbi náði  samt eins og alltaf að snúa sig út úr þessu og á einhvern undraverðan hátt tókst honum að sannfæra mömmu um það að ég væri að fara í píanónám! Sjálfur hafði ég auðvitað ekki hugmynd um það, þarna var ég 12-13 ára nýkominn heim úr einhverjum kommúnista sumarbúðum í Austur-Þýskalandi sem pabbi sendi mig í og hafði aldrei snert hljóðfæri. Hélt hvorki lagi né takti.

 

En einhvernveginn gerðist þetta nú samt, ég fór í tónlistarskóla og í dag - er ég svo sem ekkert sérstakur á píanó - en ég get með góðri samvisku kallað mig tónlistarmann og hef semsagt, út af þessu rugli í pabba í gamla daga, haft fínar tekjur og ekki síst ómælda gleði af því að spila og semja tónlist undanfarin ár og áratugi. Mikið óskaplega sem ég er þakklátur pabba fyrir það.

 

Ég nefni þetta kannski fyrst og fremst vegna þess að á þessum tíma var ekkert sem benti til þess að það væri neitt listrænt í mínu eðli. Ég var bólugrafið, bóknámshneigt barn og það fór ekkert fyrir mér í skóla. Vann glaður í mínum vinnubókum, kennararnir þurftu ekkert að hafa fyrir mér og engin ástæða þótti til að beina mér á einhverjar aðrar brautir. 

 

Kannski er þessi saga eins og svo margar aðrar fúlar sögur, að hún segir okkur ekki neitt. En hún gæti minnt okkur á mikilvægi þess að börn og unglingar fái tækifæri til þess að prófa allskonar hluti.

 

Meðal annars þess vegna er ég óendanlega þakklátur fyrir það hvað við sjálf stöndum duglega í lappirnar þegar vondar hugmyndir um fyrirkomulag náms og kennslu á öllum skólastigum koma fram. Sorglega oft á kostnað þess skemmtilega; leiksins, valgreina, söngleikja og annarra skapandi verkefna sem við sjálf látum okkur detta í hug að fást við. 

 

Við sjálf erum nefnilega alls ekki svo galin, en samt keppast kerfin í kringum okkur við að hafa vit fyrir okkur, mæla árangur okkar og vinnuframlag og kvarta yfir kostnaðinum sem af okkur hlýst. Alltaf eigum við að gera betur, taka fleiri verkefni að okkur - og mæta á fleiri fundi.       

 

Og oftar en ekki eru okkar viðbrögð að fara í vörn. Sem er ósköp eðlilegt, en ansi lýjandi. Hugsið ykkur orkuna sem við höfum eytt í að svara fyrir fríin okkar, starfsdagana, árangur í lestri, brottfall úr framhaldsskóla og ég veit ekki hvað. Ég held í fúlustu alvöru að við þurfum að bera miklu, miklu meiri virðingu fyrir okkur sjálfum og setja öðrum mun skýrari mörk hvað okkur varðar.

 

Að mínu viti erum við til að mynda komin á algjöra endastöð orðagjálfurs. Þar þurfum við að setja mörk. Í nýrri menntastefnu eru boðaðar breytingar á aðalnámskrám og ef það stendur til enn eina ferðina að stefna öllum helstu og elstu fræðimönnum þjóðarinnar (með fullri virðingu fyrir þeim) saman  og láta þá setja öll fínu og flottu hugtökin sem þeir kunna niður á blað þá verðum við að segja stopp. Eins og góð fagmanneskja sagði við mig í dag: „Það er betra að hafa eina blaðsíðu sem maður fer eftir en þrjátíu sem maður fer ekki eftir.“

 

Við þurfum líka að hugsa lengra fram í tímann. Nú er búið að boða menntastefnu til 2030. Og hvað? Væntanlega eyðum við dýrmætum tíma og orku í að þrasa um hana og áður en við er litið er klukkan orðin. 9-10 ár er ekki neitt í menntamálum. 

 

Síðast en ekki síst verðum við að ræða það í fullri alvöru hvort besta rekstrarform leik- grunn- og tónlistarskóla sé að 69 sveitarfélög þar sem rúmur helmingur er með færri en 1000 íbúa standi undir þjónustunni. Þetta er risastórt samfélagslegt mál, sem á ekki bara við það sem snýr beint að skólakerfinu. Margt af því sem við erum að glíma við dags daglega heyrir jú undir heilsugæslu, félagsþjónustu og jafnvel löggæslu. Þar sitjum við bara alls ekki öll við sama borð. 

 

Þetta verðum við að ræða af yfirvegun og sanngirni, án þess að nokkur maður fari í vörn. Ég veit vel að þetta leysist ekki á einni nóttu með sameiningarvaldboði og ég veit líka að sveitarfélögin eru öll af vilja gerð til að gera vel, en það er bara ekki nóg.

 

Það fylgir því flækjustig að tveir aðilar (ríki og sveitarfélög) reki þetta kerfi okkar. Allt of margt fellur milli kerfa og fjármögnun verkefna er of oft ekki á hreinu. Nú er til dæmis búið að boða um margt ágætt farsældarfrumvarp og sveitarfélögin telja sig vita að peningurinn sem fylgir frá ríkinu dugi ekki til. Kunnuglegt stef.  

 

Að lokum langar mig einfaldlega að biðja ykkur að kjósa mig. Ég er kolómögulegur í kosningabaráttu, mér er meinilla við að bögga vinnandi fólk, ég mun ekki hringja í neinn eða bombardera facebook hópana ykkar. En ég er sjálfur á Facebook og er alltaf til í spjall.

 

Takk fyrir mig   

bottom of page